Viðskipti erlent

AOL segir upp 1.300 manns

Frá skrifstofum AOL og Time Warner árið 2001.
Frá skrifstofum AOL og Time Warner árið 2001. Mynd/AFP

Bandaríska netveitan American Online (AOL) greindi frá því í dag að hún ætli að segja upp 1.300 manns, sem er um 7 prósent allra starfsmanna fyrirtækisins. Þá mun fyrirtækið loka þremur skrifstofum sínum í Bandaríkjunum.

Nicholas Graham, talsmaður AOL, sagði í samtali við bandaríska dagblaðið USA Today, að netmarkaðurinn væri annar í dag en fyrir tíu árum þegar AOL opnaði fjölda skrifstofa í Bandaríkjunum. Þá hafi kröfur viðskiptavina netveitunnar breyst mikið auk þess sem tækninni hafi fleytt mikið fram, að hans sögn.

Viðskiptavinir AOL voru 26,7 milljónir þegar best lét árið 2002. Þeim hefur fækkað mikið á síðastliðnum árum og voru þeir 18,6 milljónir í lok mars. Ástæðan fyrir fækkuninni er sú að AOL býður viðskiptavinum sínum upp á upphringisamband en margir hafa skipt yfir í breiðbandslínur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×