Viðskipti erlent

Hollinger tapaði rúmum 800 milljónum króna

Hollinger International gaf meðal annars út dagblaðið Daily Telegraph í Bretlandi.
Hollinger International gaf meðal annars út dagblaðið Daily Telegraph í Bretlandi. Mynd/AFP

Bandaríska dagblaðaútgáfan Hollinger International tapaði 11,7 milljónum Bandaríkjadölum, jafnvirði 824,6 milljóna íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi 2006. Tapið nemur 13 sentum á hlut. Þetta er ófullnægjandi afkoma, að sögn stjórnar útgáfunnar.

Á sama tíma fyrir ári nam tap fyrirtækisins 18,5 milljónum dollurum eða 20 sentum á hlut.

Í uppgjörstölunum er sala Hollinger International á kanadískum dagblaðahluta útgáfunnar.

Rekstrartap fyrirtækisins nam 102,4 milljónum dollara en tapið nam 109,4 milljónum dollara á sama tíma fyrir ári. Þá drógust auglýsingatekjur saman um 6 prósent á milli ára en þær námu 78,9 milljónum dollara á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Conrad Black, fyrrum forstjóri Hollinger Internation, var rekinn ásamt nokkrum fyrrum framkvæmdastjórum fyrirtækisins í kjölfar þess að þeir voru ákærðir m.a. fyrir fjárdrátt og misnotkun á fríðindum fyrirtækisins . Er þeim gefið að sök að hafa dregið að sér 84 milljónir dollara úr sjóðum Hollinger International.

Hollinger International var eitt sinn þriðja stærsta fjölmiðlaveldi heims. Fyrirtækið hefur selt flest dagblöð undir fyrirtækjahatti sínum og hefur í bígerð að breyta um nafn til að hreinsa af sér óorðið sem Black og félagar komu á það. Á meðal þeirra dagblaða sem Hollinger International gaf út voru Jerusalem Post og breska dagblaðið Daily Telegraph. Nú einskorðast útgáfa fyrirtækisins að mestu leyti við svæðið í námunda við Chicago í Bandaríkjunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×