Sport

Bölvar "meindýrum" í skoska boltanum

Romanov vandar mönnum og málefnum í skoska boltanum ekki kveðjurnar
Romanov vandar mönnum og málefnum í skoska boltanum ekki kveðjurnar NordicPhotos/GettyImages

Vladimir Romanov notaði tækifærið eftir að lið hans varð bikarmeistari í gær til að viðra samsæriskenningar sínar um skosku úrvalsdeildina. Romanov segir það hneyksli að lið hans skildi ekki verða meistari og kennir um "meindýrum" eins og dómurum, umboðsmönnum og knattspyrnuyfirvöldum í landinu.

"Ég sá það ekki fyrir í mínum verstu martröðum að tímabilið færi svona hjá okkur - ég byggði þetta lið upp til að verða meistari, en bjóst ekki við að mæta svona mikilli andstöðu frá öllu og öllum, sérstaklega dómurunum.

Það eru meindýr í fótboltanum sem þekkja bara eitt orð - peninga. Takmark mitt fyrir næstu leiktíð er að sjá til þess að þessi meindýr fái ekki að nærast á félaginu mínu. Ég mun sauma fyrir alla vasa og sjá til þess að þeim verði ekki rænt frá mér, svo ég geti varið mínu fé í að styrkja liðið," sagði Romanov, sem svaraði kaldhæðnislega þegar hann var spurður út í framtíð afleysingastjórans Valdas Ivanauskas hjá félaginu.

"Ef ég rek hann, munuð þið segja að hann sé frábær þjálfari og ef ég ræð hann áfram, segið þið að hann sé lélegur - svo að það skiptir líklega engu máli hvað ég geri hvort sem er," sagði Romanov gremjulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×