Viðskipti innlent

Tap Vopnafjarðarhrepps 35,1 milljón króna

Vopnafjörður.
Vopnafjörður.

Vopnafjarðarhreppur skilaði 35,1 milljóna krónu tapi á síðasta ári, að því er fram kemur í samanteknum ársreikningi sveitarfélagsins fyrir A og B hluta. A hluti rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins var hins vegar jákvæður um 6,8 milljónir króna. Rekstrartekjur námu 403,6 milljónum á síðasta ári. Þar af námu rekstrartekjur A hluta 299,4 milljónum króna.

Í ársreikningum sveitarfélagsins kemur fram að álagningarhlutfall útsvars hafi verið 13,03 prósent, sem sé lögbundi hámark. Álagningarhlutfall fasteignagjalda í A-flokki nam 0,4 prósentum en lögbundið hámark þess er 0,5 próent. Með álagi nemur lögbundið hámark þess 0,62 prósentum. Í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,65 prósentum, sem er lögbundið hámark þess með álagi.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2005 nam 278,9 milljónum króna, samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A hluta 327 milljónum króna.

Til A hluta, þ.e. sveitarsjóðs, telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Hér er um að ræða Aðalsjóð, en auk hans Eignasjóð og Þjónustumiðstöð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B hluta starfsemi sveitarfélagsins eru Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, Félagslegar íbúðir, Leiguíbúðir, Félagsheimili, Lyfsala, Hótel Tangi, Skiphólmi ehf. og Arnarvatn ehf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×