Sport

Oddaleikur hjá Phoenx og LA Clippers

Elton Brand átti mjög góðan leik í sigri Clippers í nótt
Elton Brand átti mjög góðan leik í sigri Clippers í nótt NordicPhotos/GettyImages

Los Angeles Clippers knúði í nótt fram oddaleik í undanúrslitaeinvígi liðanna í Vesturdeildinni með 118-106 sigri á heimavelli sínum í sjötta leiknum í nótt. Bæði lið hafa því unnið þrjá leiki í einvíginu og hreinn úrslitaleikur verður í Phoenix á mánudagskvöldið.

Lið Clippers hefur aldrei í sögunni komist lengra en í aðra umferð úrslitakeppninnar, en ef Phoenix hefur sigur í oddaleiknum á mánudag, yrði það í áttunda skipti í sögu félagsins og annað árið í röð sem liðið spilaði í úrslitum Vesturdeildarinnar. Phoenix vann leik 1,3 og 5 í einvíginu, en Clippers leik 2,4 og 6. Phoenix er í sterkri stöðu á heimavelli sínum í oddaleiknum, en heimaliðið hefur unnið 76 af þeim 93 oddaleikjum sem spilaðir hafa verið í 7 leikja seríum í sögu úrslitakeppninnar.

"Þetta er frábært, alveg frábært," sagði Sam Cassell, leiðtogi Clippers-liðsins eftir leikinn. "Við náðum að kreista út einn sigur í viðbót og erum á leið í oddaleik. Það er spennandi fyrir ungu strákana í liðinu - og þeir óttast ekkert," sagði hann. Leikirnir þrír sem liðin hafa spilað í Phoenix hafa verið mjög jafnir - Clippers náði að vinna einn en tapaði tveimur mjög naumlega.

Elton Brand var stigahæstur í liði Clippers með 30 stig og 12 fráköst og Corey Maggette kom af bekknum og skoraði 13 af 15 stigum sínum í fjórða leikhlutanum. Quinton Ross skoraði 18 stig, Sam Cassell skoraði 15 stig og gaf 8 stoðsendingar og Chris Kaman skoraði 15 stig og hirti 10 fráköst.

Shawn Marion skoraði 34 stig, hirti 9 fráköst og stal 6 boltum hjá Phoenix, Leandro Barbosa skoraði 25 stig, Steve Nash skoraði 17 stig og gaf 11 stoðsendingar og Boris Diaw skoraði 14 stig, hirti 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Steve Nash skoraði þriggja stiga körfu í fyrsta leikhlutanum í nótt, en það var fyrsti þristurinn hans síðan í fyrsta leiknum í einvíginu og hafði hann klikkað á 14 slíkum í röð fram að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×