Viðskipti erlent

NYSE sameinast Euronext

Úr kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum.
Úr kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

Kauphöllin í New York í Bandaríkjunum (NYSE) og samevrópski hlutabréfamarkaðurinn Euronext munu að öllum líkindum sameinasta á næstunni. Við sameininguna mun verða til hlutabréfamarkaður beggja vegna Atlantsála sem metinn er á 16 milljarða evrur. Þýska kauphöllin Deutsche Boerse hafði áður haft áætlanir uppi um sameiningu við Euronext.

Samkeppni á milli kauphalla hefur stóraukist síðustu misserin og búast sérfræðingar við frekari samruna kauphalla í kjölfarið með það fyrir augum að lækka kostnað.

Euronext, sem hefur útibú í París, Lissabon og Amsterdam, hafði fyrr á þessu ári í bígerð að kaupa kauphöllina í Lundúnum í Bretlandi (LSE). Áætlanir þess efnis voru lagðar á hilluna í kjölfar þess að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq hóf viðamikil hlutafjárkaup í honum. Nasdaq hefur aukið hlut sinn mikið í LSE og átti á föstudag í síðustu viku fjórðung allra bréfa í markaðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×