Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar, segist síður en svo móður á lokasprettinum í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að hún hafi í raun staðið hjá honum frá því í haust. Hann ræsti í dag unga sem aldna í árlegu Breiðholtshlaupi, í hverfinu þar sem hann hefur búið í liðlega aldarfjórðung.
Fréttastofa NFS hefur fylgst með oddvitum framboðanna í Reykjavík á lokasprettinum í kosningabaráttunni og í dag er komið að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Hann var mættur í dag við Miðberg í Breiðholti til að ræsa þátttakendur í Breiðholtshlaupi Leiknis sem fram fór í fimmtánda sinn.
Sjálfur segist Vilhjálmur vera mikill útvistarmaður. Hann gangi mikið um Elliðaárdalinn og hafi gert í um 24 ár. Hann gangi fyrst og fremst en geti hlaupið ef þess þurfi.
Vilhjálmur hefur búið í Breiðholti í 27 ár og segist ekkert á förum þaðan. Þar sé gott að vera og mannlífið sé fjölbreytt og starfsemi sömuleiðis. Hann eigi ekki von á því að flytja þaðan.
Vilhjálmur sigraði í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fór í haust og því má segja að kosningabaráttan hafi verið langhlaup hjá Vilhjálmi. Aðspurður segist hann þó ekkert móður á lokasprettinum, þetta sé gaman en hann sjái þó fyrir endann á baráttunni.