Sport

Vann San Antonio fjórða leikinn?

Gregg Popovich ræðir hér við Tony Parker, leikmann San Antonio
Gregg Popovich ræðir hér við Tony Parker, leikmann San Antonio NordicPhotos/GettyImages

Aganefnd NBA deildarinnar ákvað fyrir helgina að draga til baka tæknivillu sem Michael Finley leikmaður San Antonio Spurs fékk í fjórða leiknum gegn Dallas Mavericks í undanúrslitum Vesturdeildarinnar á dögunum, en úrslit leiksins réðust í framlengingu.

Þessi frétt kann að skipta litlu máli í dag, enda eru meistarar San Antonio fallnir úr keppni eftir að hafa tapað einvíginu fyrir Dallas í sjö leikjum. Það sem hinsvegar gerir niðurstöðu aganefndarinnar athyglisverða er það, að úrslit fjórða leiksins réðust í framlengingu og það var Dallas sem vann leikinn. Finley fékk villuna fyrir að röfla í dómara leiksins og Dirk Nowitzki hjá Dallas skoraði úr vítaskotinu sem hann fékk í kjölfarið.

"Ég held að allir geti ímyndað sér hvað við hugsum þegar við heyrum þessi tíðindi. Þýðir þetta þá ekki að við höfum í raun unnið leikinn með einu stigi," sagði Gregg Popovich, þjálfari San Antonio kuldalega þegar hann var frétti af dómnum. Þetta eru þó ekki alslæm tíðindi fyrir San Antonio, því Michael Finley sleppur við að punga út 1000 dollara sekt úr því að villan var tekin af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×