Innlent

Halldór hyggst segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum

MYND/Stefán

Halldór Ásgrímsson hyggst segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins. Óljóst er á þessu stigi málsins hvort eða hvaða áhrif ákvörðun hans hefur á ríkisstjórnina.

Framsóknarflokkurinn fór mjög víða halloka í sveitarstjórnarkosningunum um liðna helgi. Svo virðist sem sú útreið sem flokkurinn fékk hafi strax afleiðingar á forystu hans. Samkvæmt öruggum heimildum NFS hefur Halldór Ásgrímsson ákveðið að segja af sér í sumar. Hann mun hafa greint nánustu samstarfsmönnum sínum frá þeirri ákvörðun.

Líklegt þykir að Halldór Ásgrímsson hætti jafnframt þingmennsku eftir 32 ár á Alþingi. Spurning er hvort hann hætti jafnframt sem forsætisráðherra, en þá yrði að stokka upp í ríkisstjórninni. Halldór Ásgrímsson mun ætla að tilkynna flokksfélögum sínum um áform sín á miðstjórnarfundi í næstu viku.

Ekki náðist í forsætisráðherra í dag, en nóttina þegar niðurstöður kosninganna lágu ljósar fyrir var hann spurður að því á NFS hvort hann tæki þær til sín og þá játaði hann því. Þá var hann spurður hvort hann ætlaði að gera eitthvað í því og þá svaraði Halldór því til að hann myndi ekki gera það þá nótt.

Sterkur orðrómur er um að Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins og ráðherra, hyggi á endurkomu í pólitík, ekki síst eftir kaup Exista á VÍS, þar sem hann hefur verið forstjóri. Hann gaf ekkert út á það í gær, þegar hann var spurður, en útilokaði ekkert.

Ekki er á þessu stigi ljóst hverjar afleiðingar afsögn Halldórs Ásgrímssonar sem formanns Framsóknarflokksins hefur, en það eitt kemur ekki í veg fyrir að hann gegni embætti forsætisráðherra. Jafnvel þótt hann hætti á þingi er honum heimilt að gegna ráðherradómi; fyrir því eru fordæmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×