Innlent

Búa í tjaldi

Pólverji sem vinnur á hóteli í Reykjavík hefur þurft að hírast í tjaldi í tvær vikur og sér ekki fyrir endann á því. Nokkrir aðrir Pólverjar sem komu hingað í leit að vinnu eftir fyrsta maí eru nágrannar hans á tjaldstæðinu í Laugardal.

Prznek Gdak og Robert Makovski komu hingað til lands í leit að vinnu eftir að lög um vinnuafl frá nýju löndum Evrópusambandsins breyttust í byrjun maí. Þeir hafa nú fengið vinnu og húsnæði, eftir að hafa búið í þessu tjaldi síðan þeir komu til landsins.

Prznek segir að ef þeir hefðu ekki fengið vinnu næsta mánuðinn hefðu þeir snúið aftur til Póllands. Þeir geti ekki þurrkað fötin sín og inni í tjaldinu sé allt blautt. Það hafi verið mjög kalt og þeir geti ekki hugsað sér að vera lengur í tjaldinu

Andrzej Hara er tvítugur Pólverji sem hefur verið hér í einn og hálfan mánuð. Eftir að hann missti herbergið sitt á gistiheimili í borginni hefur hann búið í tjaldi. Þó að hann vinni á hóteli er það skammgóður vermir, því að þar býðst honum herbergi á níutíu þúsund, sem er svipað og hann fær í laun á mánuði. Nú er allt blautt nema skórnir. Hann segist samt ekki svartsýnn á framtíðina, þó að vissulega sé það erfitt þegar maður búi í tjaldi.

Margrét Valgeirsson, sem rekur pólsku búðina í Hafnarfirði segist hafa heyrt af mörgum Pólverjum sem búi í tjaldi hér á landi á meðan þeir leiti sér að vinnu, en hún hafi ekki áður orðið beinlínis vitni að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×