Innlent

Ársfundur Alþjóða hvalveiðiráðsins hófst í dag

MYND/Sigurður Jökull Ólafsson

Á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins,sem hófst í dag, ræðst væntanlega hvort tillaga Japana um að leyfa á ný hvalveiðar í atvinnuskyni, hlýtur meirihluta stuðning, eða ekki.

Þótt tillagan verði samþykkt, þýðir það ekki að hvalveiðar í atvinnuskyni geti hafist strax, því tveir þriðju þjóða í Hvalveiðiráðinu þurfa að samþykkja hana til að svo verði. Það er talið útilokað.

Hvalfriðunarsinnar segjast hinsvegar óttast að naumur meirihluti færi í nafni ráðsins að tala annari röddu en ráðið hefur gert hingað til. Þeir vonast til að sum smáríki, sem líkleg eru til að styðja tillöguna, fái ekki atkvæðisrétt af því að þau hafa ekki greitt árgjald að ráðinu, eða senda hreinlega ekki fulltrúa.

Hvalveiðisinnar segja að störf Hvalveiðiráðsins eigi ekki að snúast um hvalveiðibann um alla eilífð, heldur um skynsamlega nýtingu hvalastofna, sem ógni ekki afkomu þeirra. Japanar hafa hótað að segja sig úr Hvalveiðiráðinu og veiða hvali að eigin geðþótta, ef tillagan um atvinnuveiðar verður felld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×