Innlent

Svipta sig lífi vegna kjaraskerðinga

Dæmi eru um að eldri borgarar úr röðum öryrkja svipti sig lífi vegna skyndilegra kjaraskerðinga. Formaður Öryrkjabandalagsins segir það algjört forgangsverkefni að koma í veg fyrir að öryrkjar missi tekjur á sextíu og sjö ára afmælisdaginn, enda verði ekki ódýrara að vera fatlaður þegar þeim aldri er náð.

Áhyggjulaust ævikvöld er eitthvað sem allir vona að bíði sín. En fólk er misheppið og þeir sem hafa verið öryrkjar alla sína tíð hafa eins og gefur að skilja ekki getað búið í haginn fyrir eldri árin. Eins og það sé ekki nóg, breytist örorkan í ellilífeyri í einu vetfangi. Fyrir marga þýðir það verulega kjaraskerðingu. Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins segir þetta alls ekki ganga, enda verði ekki ódýrara að vera fatlaður eftir 67 ára aldur.

Með góðri samvinnu við samtök eldri borgara vonast Sigursteinn til að öryrkjabandalaginu verði ágengt í að bæta stöðu þess fólks sem lendir svona á milli steins og sleggju. Hann segir að það sé eitt af forgangsverkefnum Öryrkjabandalagsins.

Því miður er tilgangurinn til að halda áfram oft lítill hjá þeim sem lenda í slæmum kjaraskerðingum ofan á erfiða líkamlega fötlun, og þá er bara ein leið út. Sigursteinn segist vita um nokkur dæmi þess að fólk grípi til óyndisúrræða eftir að hafa lent í skyndilegri kjaraskerðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×