Innlent

Dræm þátttaka áhyggjuefni

Íslendingar mega ekki gleyma þeim fórnum sem færðar voru til að koma hér á almennum kosningarétti. Þetta sagði forsætisráðherra í þjóðhátiðarræðu sinni í morgun. Töluvert af fólki var í miðbænum í morgun, þrátt fyrir að veðrið væri með grárra móti.

Dagskrá þjóðhátíðardagsins hófst klukkan tíu í morgun, þar sem blómsveigur var lagður á leiði Jóns Sigurðssonar. Þar var töluvert um manninn, þrátt fyrir hálfgert leiðindaverður.

Á Austurvelli hélt Geir H. Haarde, nýr forsætisráðherra sitt fyrsta þjóðhátíðardagsávarp. Hann sagði að nú kæmi hingað fjöldinn allur af útlendingum í leit að velmegun. Það væri hins vegar áhyggjuefni að þegnar landsins nýttu ekki allir lýðræðislegan rétt sinn. Það mætti ekki gleyma þeim fórnum sem hefðu verið færðar til þess að koma hér á almennum kosningarétti. Því væri dræm þátttaka í sveitastjórnarkosningunum áhyggjuefni.

Dagskránni í borginni lýkur laust upp úr klukkan tíu í kvöld með tónleikum á nokkrum stöðum í miðbænum, þar á meðal við Arnarhól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×