Innlent

Segja framtíð landsins ráðast á næstu misserum

Fullt var út úr dyrum á stofnfundi Framtíðarlandsins, félags áhugafólks um framtíð Íslands, í Austurbæ í hádeginu. Talsmenn félagsins telja að framtíð landsins muni ráðast á næstu mánuðum eða misserum og vilja hafa áhrif á hana og gera Ísland að draumalandi.

Talsmenn Framtíðarlandsins skilgreina félagið sem hugmyndavettvang og þrýtstiafl á stjórnvöld. Þeir segja að Ísland liggi nú á teikniborðinu og að því vilji Framtíðarlandið komast með hugmyndir úr samfélaginu. María Ellingsen, einn aðstandenda Framtíðarlandsins, segir félagið ekki umhverfissamtök heldur samtök á breiðum grundvelli sem vilji hafa áhrif á atvinnustefnuna hér á landi og lífsskilyrði.

Félagið er þverpólitískt og að því kemur fólk á öllum sviðum atvinnulífsins sem vill hverfa frá atvinnustefnu byggist á stóriðju, þenslu og óþarfa eyðileggingu náttúruverðmæta. Ætlunin er að mynda breiðfylkingu til að ná eyrum stjórnvalda í aðdraganda þingkosninga. Aðspurður hvort ekki sé betra að reyna að hafa áhrif í gegnum stjórnmálin með því að bjóða fram til þins segir Sigtryggur Magnason, einn aðstandenda félagsins, segir að það sé síðasti kosturinn en menn hafi nú nokkra mánuði til að hafa áhrif á framtíðina og framtíð barna sinna.

Stefnt er að því að vinna að stofnskrá samtakanna í sumar og halda svo haustþing þar sem Framtíðarlandið kynnir sínar hugmyndir. Hægt er að skrá sig í félagið á Framtíðarlandid.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×