Alvarleg líkamsárás átti sér stað í Keflavík um sexleytið í nótt þegar ráðist var á tvo karlmenn á gangi í bænum. Bíl var ekið upp að mönnunum og stigu fjórir karlmenn út og réðust á tvímenningana. Annar þeirra hlaut alvarlega áverka á höfði og var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í Fossvogi.
Þar gekkst hann undir rannsóknir í morgun og er líðan hans stöðug að sögn læknis. Þykir hann hafa sloppið vel miðað við að ítrekað var sparkað í höfuðið á honum. Hitt fórnarlambið fékk að fara heim eftir skoðun á heilsugæslu. Lögregla veit hverjir voru að verki og hefur þegar handtekið tvo árásarmannanna en leitar hinna. Tildrög árásarinnar eru ókunn.