Innlent

Forsendur fyrir áframhaldandi viðræðum ekki fyrir hendi nú

Forsendur fyrir því að halda viðræðum áfram við stjórnvöld í tengslum við endurskoðun kjarasamninga er ekki fyrir hendi eins og staðan er nú, segir aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Hann segir boltann hjá ríkisstjórninni og viðbrögð hennar við kröfum ASÍ ráði úrslitum í viðræðunum.

Forsetar Alþýðusambands Íslands funduðu í gær með ráðherrum í ríkisstjórinni eftir að ASÍ og Samtök atvinnulífsins komust að samkomulagi um breytingar á kjarasamningum og um tillögur til að styrkja vinnumarkaðinn. Með þeim er ætlunin að koma í veg fyrir uppsögn kjarasamninga um næstu áramót og reyna að koma á stöðugleika í efnahagslífinu.

ASÍ hefur í tengslum við samningana gert kröfur um að stjórnvöld endurskoði barnabóta- og vaxtabótakerfið og leggi meira fé til starfsmenntamála. Þá vill ASÍ að breytingar verði á eftirlaunakjörum æðstu embættismanna og jafnframt lægra skattþrep fyrir þá sem lægst hafa launin. Ekki hefur verið vikið frá þeim kröfum.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir stjórnvöld hafa nefnt aðrar aðgerðir sem þau segi ná sömu markmiðum og þá með því að hækka skattleysismörk. Þar séu tvö vandamál uppi að mati ASÍ. Í fyrsta lagi hafi þessar aðgerðir ekki sömu áhrif og í annað stað sé alveg ljóst að ákvarðanir um skattleysismörk séu teknar árlega og menn hafi horft á það síðustu árin hvernig skattleysismörk hafi verið að lækka að raungildi og ekkert sé í spiliunum sem segi að jafnvel þótt eitthvað verði spýtt inn í þau núna, að þau muni ekki lækka að raungildi í staðinn eftir ár.

Halldór segir boltann hjá ríkisstjórninni. Beðið sé eftir því að frá henni komi útspil sem gefi tilefni til að ætla að það séu forsendur til að halda viðræðunum áfram. Svo sé ekki eins og staðan sé núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×