Innlent

Breytingar á reglum bitni á tekjuminni og landsbyggð

MYND/E.Ól

Framkvæmdastjóri Íbúðarlánasjóðs segir breytingar á útlánareglum sjóðsins, sem ríkisstjórnin kynnti í gær, hafa áhrif á þá tekjuminni og fólk úti á landi. Þá segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, breytingarnar skaða allmannahagsmuni.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka lánahlutfall Íbúðalánasjóðs tímabundið úr 90 prósentum í 80 prósent og hámarkslán úr átján milljónum króna í sautján. Er það liður í því að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og vinna bug á verðbólgunni.

Við þetta vakna spurningar um hvaða áhrif þetta hafi á fólkið í landinu. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðarlánasjóðs, telur að aðgerðirnar hafi mest áhrif á þá tekjuminni og fólk úti á landi sem hafi notið viðbótarlánanna. Hann minnir þó á að um tímabundnar aðgerðir sé að ræða. Aðspurður telur hann að þær hafi ekki mikil áhrif á þensluna og bendir á að Íbúðalánasjóður hafi aðeins lánað fyrir kaupsamningum.

Undir orð Guðmundar tekur Félag fasteignasala sem telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar bitni harðast á þeim sem minnstar tekjur hafi. Félagið segir verðhækkanir á húsnæði og þar af leiðandi þenslu einkum til komna vegna gríðarlegra útlána bankanna sem hafi veitt íbúðalán til hluta eins og einkaneyslu.

Undir þau orð tekur Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og segir að verið sé að hengja bakara fyrir smið með því að þrengja að Íbúðalánasjóði. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar beinist að almannahagsmunum og sé um leið rof á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna 2003 sem kvað á um 90 prósenta lán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×