Erlent

Bush vill nýjan herrétt

MYND/AP

Bush Bandaríkjaforseti útilokar ekki að mál fanga í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu fari fyrir herrétt þó Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að skipan slíks dómstóls sé ólögmæt. Úrskurður réttarins frá í gær er sagður mikið áfall fyrir Bandaríkjaforseta.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld í Washington hefðu farið út fyrir valdsvið sitt með skipan sérstaks herréttar sem ætlað er að taka fyrir mál fanga í Guantanamo-búðunum sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkum. Í úrskurðinum eru skipan réttarins sögð brjóta gegn Genfar-sáttmálanum um meðferð fanga. Tíu fangar í Guantanamo hafa verið ákærðir og einn þeirra, Jemeninn Salim Ahmed Hamdan, kærði skipan dómstólsins til Hæstaréttar. Hann vill svara ákærum gegn sér fyrir almennum dómstól eða herrétti sem ekki er sérskipaður.

Bush Bandaríkjaforseti segist ætla að grandskoða úrskurð hæstaréttar og vissulega taka tillit til hans. Hann gaf þó í skyn að hann ætlaði að leita meirihlutastuðnings á þingi fyrir skipan nýs herréttar.

Repúblíkanar í öldungadeild Bandaríkjaþings hófu þegar í gær að kanna hvernig hægt væri að tryggja meirihluta beggja þingdeilda fyrir því.

Salim Ahmed Hamden hefur áður unnið sigur fyrir bandarískum dómstólum en dómstóll í Washington hafði áður úrskurðað að ekki yrði hægt að rétta yfir honum fyrir herrétti fyrr en búið væri að úrskurða að hann væri ekki stríðsfangi. Áfrýjunardómstóll komst að annarri niðurstöðu og því fór málið fyrir Hæstarétt.

Hamden hefur óskað eftir því að vera skilgreindur sem slíkur til að hann fái notið allra réttinda sem því fylgir en því hafa stjórnvöld hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×