Viðskipti innlent

Glitnir spáir 50 til 75 punkta stýrivaxtahækkun

Glitnir banki.
Glitnir banki.

Greiningardeild Glitnis telur að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 0,50 til 0,75 prósentustig. Ef af hækkun verður munu stýrivextir Seðlabankans verða á bilinu 12,75 til 13,0 prósent en þeir hafa ekki verið jafn háir í meira en áratug.

Greiningardeild bankans segir ennfremur að með aðgerðum sínum sé Seðlabankinn að bregðast við vaxandi verðbólgu en án aðgerða muni verðbólgan verða sennilega yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði bankans fram yfir næstu ár. Deildin telur hins vegar að Seðlabankanum takist að líkindum að ná verðbólgumarkmiði sínu í lok árs.

Þá segir greiningardeildin að þensla sé enn talsverð á innlendum markaði þótt kaupmáttur heimilanna hafi rýrnað nokkuð á síðustu mánuðum samhliða lækkun krónunnar og aukinni verðbólgu. Muni verðbólgan fara í um 9 prósent, að mati deildarinnar. „Hækkun vaxta, ekki síst langtímavaxta, og skert aðgengi almennings að lánsfé leggst hins vegar á árar með minnkandi kaupmætti og dregur úr neyslu á næstunni. Við bætist samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna sem verður umtalsverður þegar líður að lokum yfirstandandi stóriðjuframkvæmda. Reikna má með samdrætti í neyslu og fjárfestingu þegar líða tekur á árið og enn frekar þegar kemur fram á næsta ár. Á næsta ári mun því draga hratt úr spennu í efnahagslífinu og verðbólgan hjaðnar," segir greiningardeild Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×