Sport

Ben Wallace á leið til Chicago

Ben Wallace er á leið til Chicago
Ben Wallace er á leið til Chicago NordicPhotos/GettyImages

Miðherjinn "Stóri-Ben" Wallace, sem verið hefur lykilmaður í harðri vörn Detroit Pistons undanfarin ár, hefur samþykkt tilboð frá Chicago Bulls um að ganga í raðir liðsins. Wallace var með lausa samninga nú í sumar og fáir áttu von á því að hann færi frá félaginu, en Chicago gat boðið honum mikið hærri laun en Detroit og hefur hann því ákveðið að skipta um lið.

Ekki er hægt að ganga formlega frá samningi fyrr en 12. júlí nk, en tilboð Detroit upp á fjögur ár og um 48 milljónir dollara - en heimildarmenn ESPN-sjónvarpsstöðvarinnar segja að Wallace fái 60 milljónir fyrir fjögur ár hjá Chicago.

Wallace er 32 ára gamall og hefur um árabil verið einn besti varnarmaður deildarinnar, auk þess sem hann er jafnan á meðal efstu manna í fráköstum og vörðum skotum. Hann gefur liði Chicago aukna reynslu og hörku, en talið er víst að liðið reyni nú að losa sig við Tyson Chandler í staðinn - en sá hefur valdið vonbrigðum allar götur síðan hann kom inn í deildina.

Lið Detroit er hinsvegar í vondum málum, því það missir Ben Wallace og fær ekki krónu í staðinn og hefur lítið svigrúm til að verða sér út um annan leikmann til að fylla skarð hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×