Viðskipti erlent

Gengi Yahoo féll vegna minni hagnaðar

Merki Yahoo.
Merki Yahoo.

Gengi hlutabréfa í bandaríska netleitarfyrirtækinu Yahoo lækkaði um 13 prósent við lokun markaða í gær í kjölfar þess að fyrirtækið greindi frá minni hagnaði á öðrum ársfjórðungi en spár kváðu á um. Ástæðan fyrir því eru tafir á uppfærslu á leitarvél fyrirtækisins sem gera átti á þriðja fjórðungi ársins. Þær dragast fram á þrjá síðustu mánuði ársins.

Hagnaður Yahoo fyrir skatta nam 164 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 12,5 milljarða íslenskra króna, sem er 78 prósenta samdráttur frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 754,7 milljónum króna eða 57,3 milljörðum króna.

Stærstur hluti af hagnaði Yahoo á síðasta ári var tilkominn vegna sölu fyrirtækisins á bréfum í keppinautnum Google.

Þrátt fyrir þetta jukust tekjur Yahoo um 28 prósent á milli ára. Þær námu 1,12 milljörðum dala, sem engu að síður eru rétt undir væntingum. Fyrirtækið spáir 1,12 til 1,23 milljarða dala, jafnvirði 85 til 93,6 milljarða króna, tekjum á þriðja ársfjórðungi en fjármálasérfræðingar höfðu spáð að tekjurnar yrðu á bilinu 1,15 til 1,24 milljarðar dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×