Innlent

Leggjast yfir gögn Ríkiskaupa

Stjórnendur Atlantsolíu fengu í dag afhent gögn um samning sem Ríkiskaup gerðu við Skeljung og ESSO um kaup á eldsneyti og olíu fyrir ríkið. Forstjóri Ríkiskaupa vonar að það verði ekki til að veikja samkeppnisstöðu annarra olíufélaga í útboði í haust, þótt hann hafi neyðst til að láta pappírana af hendi.

Framkvæmdastjóri og markaðsstjóri Atlantsolíu voru sigurreifir þegar þeir komu að húsakynnum Ríkiskaupa í hádeginu, í bíl kyrfilega merktum Atlantsolíu. Þeir voru þangað komnir til að sækja gögn um samning Ríkiskaupa við Skeljung og ESSO um kaup á eldsneyti og olíum fyrir ríkið.

Ríkiskaup höfnuðu beiðni Atlantsolíu um aðgang að skjölunum en úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði í gær að forsvarsmenn félagsins skyldu fá gögnin í hendur sínar.

Albert Þór Magnússon, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir að nú verði lagst í þau gögn sem þeir fengu afhent. Hann segir þetta vissulega geta styrkt stöðu félagsins í útboði Ríkiskaupa í haust en aðalmálið sé að athuga hvort félagið geti boðið stjórnvöldum betri samning en það hefur notið síðustu ár.

Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að ekki hafi annað komið til greina en að afhenda gögnin eftir að úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði að það skyldi gert. Hann segir þó að í gögnunum komi margt fleira fram en verð, þar sé meðal annars fjallað um hugmyndir að þjónustu sem skyldi veita, og því geti þetta orðið til að veikja stöðu annarra olíufélaga í komandi útboði. Júlíus vonar þó að svo verði ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×