Viðskipti innlent

Aflaverðmæti fiskiskipa minnkar milli ára

Fiskafla landað.
Fiskafla landað.

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 25 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þetta er einum milljarði minna en á sama tíma í fyrra og nemur samdrátturinn 3,8 prósentum, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Þá nam aflaverðmæti aprílmánaðar 6,1 milljarði króna en það er 400 milljónum meira en í sama mánuði fyrir ári, samkvæmt Hagstofunni.

Aflaverðmæti botnfisks í apríllok var tæpri 20 milljarðar króna eða rúmum milljarði meira en árið 2005. Verðmæti þorskaflans nam 10,9 milljörðum króna á sama tíma og er óbreytt á milli ára. Þá jókst verðmæti ýsuaflans um 5,8 prósent á milli ára en hann nam 3,7 milljörðum króna.

Mest varð aukning í verðmæti ufsaaflanum. Verðmætið nam 1,2 milljörðum króna og er það 38 prósenta aukning á milli ára. Verðmæti uppsjávarafla dróst hins vegar saman um 39 prósent á milli ára. Verðmæti nam 3,4 milljörðum króna en nam 5,6 milljörðum á sama tíma í fyrra.

Verðmæti afla sem seldur var á fiskmörkuðum fyrstu fjóra mánuðina nam 4,6 milljörðum króna og jókst um 12 prósent frá árinu á undan. Verðmæti óunnins afla í gáma til útflutnings nam 2,4 milljörðum sem er nánast sama og árið 2005. Aflaverðmæti sjófrystingar nam 7,7 milljörðum króna en það er 7,7 prósents aukning frá 2005. Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu var 10,2 milljarðar króna og dróst saman um 17 prósent frá fyrra ári, samkvæmt Hagstofunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×