Innlent

Persónuleg óvild segir formaður ÖBÍ

Stjórnarmenn í Öryrkjabandalaginu ætla að kæra formann bandalagsins til félagsmálaráðuneytisins vegna framgöngu hans við gerð samnings við nýjan framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins. Formaðurinn segir framgöngu mannanna sprottna af persónulegri óvild í sinn garð.

Sigursteinn Másson var kjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands, (ÖBÍ) í fyrrahaust. Tiltölulega skömmu eftir að hann tók við embættinu var framkvæmdastjóra bandalagsins, Arnþóri Helgasyni, sagt upp störfum og sagði Sigursteinn uppsögnina nauðsynlega til að koma í gegn skipulagsbreytingum. Uppsögnin kom mörgum innan Öryrkjabandalagsins á óvart og sá hópur manna sem nú hefur lýst yfir óænægju sinni með störf Sigursteins segist aldrei hafa fengið tilhlýðilega skýringu á uppsögninni. Einn mannanna, Guðmundur Johnsen, stjórnarmaður í ÖBÍ, segir það, ásamt röð atvika, gera að verkum að þeir stígi nú fram.

Annað atvik sem Guðmundur nefnir er framganga Sigursteins við gerð samnings við nýjan framkvæmdastjóra bandalagsins þar sem formaðurinnn hafi í raun ákveðið eigin laun um leið því formaður og framkvæmdastjóri fái sömu laun. Aðalstjórn fékk aldrei að vita hvað fólst í samningnum, og það var kornið sem fyllti mælinn. Guðmundur segist því ekki sjá annan kost í stöðunni en að kæra Sigurstein til félagsmálaráðuneytisins.

Fréttastofan hefur ekki náð í Sigurstein í dag en hann segir í samtali við Fréttablaðið að staðhæfingar Guðmundar og félaga séu sprottnar af persónulegri óvild í sinn garð. Guðmundur segir óvildina ekki meiri en það að hann hafi kosið Sigurstein í formannsembættið á síðasta ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×