Innlent

Horfið aftur til miðalda á Gásum

Horfið var aftur til miðalda á Gásum í Eyjafirði í dag þar sem haldin var lifandi hátíð í þessari fyrrum helstu útflutningshöfn Norðlendinga.

Í kringum eitt þúsund manns lögðu leið sína á miðaldramarkaðinn á Gásum. Þar var við ýmislegt að hafa og mátti sjá handverk, húsdýr og hlusta á söng svo eitthvað sé nefnt.

Ný stofnuð samtök um ferðatengda þjónustu notuðu tækifærið og kynntu sig í dag en Gásir eiga aðild að samtökunum. Samtökin eiga að auka samvinnu þeirra aðila sem vinna með fyrstu fjórar aldir Íslandssögunnar og vilja þau beina sjónum ferðamanna enn frekar að söguarfleið Íslendinga. Á meðal aðila sem eru í samtökunum eru Þjóðminjasafn Íslands, Árnastofnun og Fjörukráin. Rögnvaldur Guðmundsson, formaður samtakanna, segir stofnun þeirra vera löngu tímabæra.

Samtökin hafa gefið út bækling á ensku og íslensku þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um öll þau söfn og sýningar á landinu leggja áherslur á elsta tímabil Íslandssögunnar. Fyrir áhugasama má bæta við að markaðurinn á Gásum verður einnig opinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×