Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hefur tryggt sér sigur á opna breska meistaramótinu í golfi, annað árið í röð. Woods lék af fádæma öryggi í dag og tryggði sér sigur með því að leika lokahringinn á 67 höggum og endaði á 18 höggum undir pari. Chris DiMarco lék á 68 höggum í dag og lauk keppni tveimur höggum á eftir Woods, sem grét fögrum tárum þegar sigurinn var í höfn.
Woods var í miklu tilfinningalegu uppnámi eftir að sigurinn var í höfn og tileinkaði sigurinn föður sínum sem lést fyrir skömmu.