Innlent

Tjaldstæðið við Lindur rýmt

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefur fjarlægt allt fólk af tjaldsvæðinu við Lindur að ósk Landsvirkjunar. Til átaka kom á svæðinu í nótt þegar lögregla handtók fjórtán mótmælendur. Sumir þeirra höfðu hlekkjað sig við stangir.

Sýslumaður telur sig hafa lagaheimild til þessa á grundvelli lögreglulaga frá 1996. Nokkur fjöldi mótmælenda, innlendra og erlendra, hafa dvalist á svæðinu, flestir þeirra við skála Ferðafélagsins við Snæfell. Lögregla handtók í nótt 14 einstaklinga sem farið höfðu inn á vinnusvæði við Kárahnjúkavirkjun og valdið þar truflun á starfsemi framkvæmdaaðila, að sögn sýslumanns. Landsvirkjun kærði aðgerðirnar og í kjölfarið var ákveðið að fjarlægja allt fólk af svæðinu að beiðni Landsvirkjunar.

Til nokkurra átaka kom milli lögreglu og mótmælenda en sumir þeirra höfðu fest sig við stangir eða grafið hendur sínar í jörðu og þurfti lögregla að losa þá svo hægt væri að fjarlægja þá. Að sögn Óskars Bjartmarz yfirlögregluþjóns á staðnum lagði lögregla ekki mat á það hvort þarna væru á ferð mótmælendur eða venjulegir ferðamenn heldur voru allir sem voru á staðnum fjarlægðir.

Enn er ekki ljóst hvort mómælendur hyggist reisa tjaldbúðir á öðrum stað á Kárahnjúkasvæðinu og að sögn Óskars hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvernig tekið verður á því ef af verður. Hinir handteknu voru færðir á lögreglustöðina á Egilsstöðum en hafa nú verið látnir lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×