Innlent

Meira en tíu þúsund manns á þremur stöðum

Þrjár útihátíðir náðu líklega því marki að fá tíu þúsund gesti. Flestir voru á Akureyri en mikið fjölmenni var einnig í Vestmannaeyjum og á Unglingalandsmóti UMFÍ að Laugum.

Nær fjörutíu þúsund manns voru á þremur stærstu útihátíðum landsins um helgina og þó áberandi flestir hafi lagt leið sína til Akureyrar dreifðust ferðalangar víða.

Um fimm þúsund manns voru á Síldarævintýri á Siglufirði og gekk skemmtunin vel fyrir sig utan að tvær líkamsárásir komu til kasta lögreglu. Átján þúsund manns voru á Akureyri að sögn skipuleggjenda, en ein nauðgun hefur verið kærð og leitað til Afls út af tveimur til viðbótar.

Allt að tíu þúsund manns voru á Unglingalandsmóti UMFÍ á Laugum. Tæplega 2000 lögðu leið sína á Álfaborgarsjens í Borgarfirði eystra og álíka margir voru á Neistaflugi í Neskaupstað. Rúmlega 3000 manns mættu á gleði Hvítasunnumanna í Kirkjulækjarkoti og um fimm þúsund í Galtalæk. Þá er talið að um tíu þúsund hafi verið í Vestmannaeyjum.

Þó tónleikar Sigurrósar í Ásbyrgi hafi aðeins staðið eitt kvöld varð það til að um fimm þúsund manns lögðu leið sína þangað á föstudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×