Viðskipti innlent

Actavis þrefaldar tekjurnar

Heildartekjur Actavis á öðrum ársfjórðungi þrefölduðust miðað við sama tíma í fyrra og námu 364,1 milljón evra. Árshlutauppgjör félagsins var birt eftir lokun markaða í dag. Á sama tímabili í fyrra námu tekjurnar 121,9 milljónum evra. Aukningin nemur 198,4 prósentum.

Hagnaður fyrir skatta nemur 40,9 milljónum evra og hreinn hagnaður er 29,9 milljónir evra, eða rúmir 2,7 milljarðar króna.

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra var hreinn hagnaður 10,5 milljónir evra, eða um 950 milljónir króna samkvæmt gengi gærdagsins.

Framlegðarhlutfallið (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi er 21,8 prósent, en það er meðal annars sagt skýrast af góðum árangri í Norður-Ameríku og í Mið- og Austur-Evrópu, auk Asíu.

„Við erum ánægð með rekstur félagsins á fyrri hluta ársins og erum við að ná góðum árangri á flestum okkar lykilmörkuðum. Öflugur innri vöxtur og góð framlegð styðja við þá stefnu okkar að byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki með góða tekjudreifingu á stærstu lyfjamörkuðum heims," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×