Innlent

Skorar á yfirvöld að lengja kennaranám

Formaður Kennarasambands Íslands skorar á yfirvöld að lengja kennaranám til samræmis við nágrannalöndin til þess að bæta námsárangur í íslenskum skólum. Þá segir hann samfélagið í heild þurfa að taka á óstýrilæti og agaleysi til þess að ná sömu markmiðum.

Í nýrri efnahagsskýrslu OECD um Ísland er meðal annars bent á að fjárveitingar til menntamála hafi verið stórauknar á síðustu árum og séu nú meðal þeirra hæstu innan OECD miðað við landsframleiðslu. Það hafi hins vegar ekki skilað sér í betri námsárangri sem sé í meðallagi í grunnskólum samkvæmt könnunum. Skýrsluhöfundar leggja því til að gæðin verði tekin fram yfir magnið í skólum.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segir að það taki nokkur ár til viðbótar fyrir aukið fjármagn að skila sér í betri árangri. Hann bendir á að fjármagn til kennslu í grunnskólum hafi verið skorið gífurlega niður á árinu 1992 þannig að þeir sem hafi útskrifast árið 2003 hafi upplifað grunnskólann með verulega skertri þjónustu.

Skýrsluhöfundar benda á að leggja þurfi meiri áherslu á aukna menntun kennara en sömu tillögur komu frá nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins nýverið. Eiríkur skorar á bæði ríkisstjórnina og sveitarfélögin að gera kennaramenntun sambærilega við samanburðarlöndin. Þá sé hann viss um að Íslendingar verði meðal þeirra þjóða sem ná bestum árangri.

Fleiri þættir spila inn í námsárangur og nefnir Eiríkur þar aga en hann sé minni hér í skólum en í nágrannalöndunum. Þar þurfi heimilin og skólarnir að vinna saman því öðruvísi náist ekki árangur á þessu sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×