Innlent

Ríkisskattstjóri kominn út fyrir sitt valdsvið

Ríkisskattsjóri er kominn út fyrir valdsvið sitt þegar hann gefur í skyn að fjármálafyrirtæki hér á landi veiti ráðgjöf um skattsvik. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.

Ríkisskattstjóri sagði í fréttum okkar í gær það færðist í aukana að fjármálafyrirtæki ráðleggi fólki hvernig það geti komist hjá því að greiða skatta.

Ráðgjöfin sem slík sé ekki ólögleg en þeir sem eftir henni fari geti gerst brotlegir við lög.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmstjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir þá skattaráðgjöf sem íslensk fjármálafyrirtæki veiti bæði löglega og eðlilega. Það séu fá ef nokkur fyrirtæki sem lúti jafn stífu laga- og regluumhverfi og fjármálafyrirtæki. Guðjón segir mismunandi skattalöggjöf í gangi í heiminum og að fyrirtækin séu einungis að upplýsa fólk um möguleikana í þeim.

Guðjón segir að ef viðskiptavinir fyrirtækjanna fái ekki þjónustuna hér á landi þá muni þeir leita annað eftir henni. Hann segir ríkisskattstjóra með ummælum sínum vera kominn út fyrir sitt svið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×