Innlent

Verðbólgan er 8,6 prósent

Vísitala neysluverðs í ágúst 2006 er 264,0 stig og hækkaði um 0,34 prósent frá fyrra mánuði, samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands. Tólf mánaða verðbólga mælist því 8,6 prósent og er það í neðri mörkum spám greiningardeilda, sem spáðu 0,3 til 0,5 prósenta hækkun verðbólguvísitölunnar.

Verð á dagvörum hækkaði um 1,8 prósent og viðhaldsliður eigin húsnæðis hækkaði um 3,5 prósent.

"Sumarútsölur standa enn yfir og lækkaði verð á fötum og skóm um 3,4% (-0,15%). Verð á eigin húsnæði lækkaði um 0,1% (-0,01%) þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,09% og af hækkun vaxta 0,08%," segir Hagstofan.

Um leið og vísitala neysluverðs hefur hækkað um 8,6 prósent síðustu 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 7,1 prósent. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,0 prósent sem jafngildir 8,1 prósents verðbólgu á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×