Viðskipti innlent

Hagnaður umfram væntingar

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.

Hagnaður Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf., sem á og rekur Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráningu Íslands, nam 237,1 milljón króna á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn 49,4 milljónum króna.

Í tilkynningu frá eignarhaldsfélaginu til Kauphallar Íslands kemur fram að rekstrartekjur Kauphallar Íslands hafi numið 313,8 milljónum króna og rekstrargjöld 206,8 milljónum króna. Rekstrarhagnaðurinn fyrir fjármagnsliði var því 107 milljónir króna. Hagnaðurinn nemur 172,9 milljónum en var 21,7 milljónir á fyrri helmingi síðasta árs.

Í tilkynningunni segir að hagnaður Kauphallarinnar hafi verið langt umfram áætlanir en í rekstraráætlun var reiknað með tæplega 20 milljóna króna hagnaði á fyrri árshelmingi. Frávik frá áætlun megi fyrst og fremst rekja til þess að velta skráðra verðbréfa var mun meiri en búist hafði verið við auk þess sem hreinar fjármunatekjur voru mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þá keypti Kauphöllin snemma á árinu í OMX og Oslo Børs fyrir 155 milljónir króna.

Rekstrartekjur Verðbréfaskráningar Íslands námu 162 milljónum króna á fyrri helmingi ársins og rekstrargjöld 92 milljónum króna. Rekstrarhagnaður að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta nam hagnaður 64 milljónum króna.

Afkoma Verðbréfaskráningar var talsvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en það skýrist fyrst og fremst af því að rekstrartekjur eru talsvert hærri en gert var ráð fyrir í áætlun. Hins vegar er rekstrarkostnaður í samræmi við áætlun fyrri hluta ársins, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að umfang viðskipta á fyrri hluta ársins hafi verið meiri en nokkru sinni áður. Séu vísbendingar um að viðskipti verði áfram lífleg og ljóst er að velta þessa árs verði langt umfram það sem hún hefur áður verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×