Körfubolti

Spánn og Argentína í undanúrslit

Pau Gasol hefur farið á kostum með spænska liðinu á HM í Japan
Pau Gasol hefur farið á kostum með spænska liðinu á HM í Japan NordicPhotos/GettyImages

Spánverjar og Argentínumenn mætast í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í körfuknattleik í Japan á föstudaginn eftir að liðin unnu bæði mjög sannfærandi sigra á andstæðingum sínum í 8-liða úrslitunum. Bæði lið hafa unnið alla sjö leiki sína á mótinu og ljóst að einvígi þeirra í undanúrslitunum verður frábær slagur.

Spánverjar lögðu Litháa mjög örugglega 89-67 í morgun og eru komnir í undanúrslit á HM í annað sinn. Framherjinn Pau Gasol hjá Memphis Grizzlies skoraði 25 stig og hirti 9 fráköst pg Juan Carlos Navarro skoraði 22 stig fyrir spænska liðið, sem hefur verið einstaklega sannfærandi á mótinu og virkar til alls líklegt. Besti árangur spænskra til þessa á HM er 4. sæti á mótinu árið 1982. Pau Gasol hefur farið fyrir spænska liðinu á mótinu og skorar yfir 21 stig og hirðir rúm 9 fráköst að meðaltali í leik, en hann er auk þess með 65% skotnýtingu. Litháar sáu aldrei til sólar í leiknum í morgun, en þeir mættu með ungt og óreynt lið til keppni að þessu sinni.

Argentínumenn voru ekki í vandræðum með sterkt lið Tyrkja og sigruðu örugglega 83-58. Framherjinn Andres Nocioni, sem spilar með Chicago Bulls, var stigahæstur í liði Argentínu með 22 stig og misnotaði aðeins eitt skot í leiknum. Argentínumenn hafa líkt og Spánverjar verið mjög sannfærandi á mótinu og hafa unnið fyrstu sjö leiki sína með yfir 23 stiga mun að meðaltali. Enginn af byrjunarliðsmönnum Argentínu þurfti að spila í fjórða leikhlutanum.

Á morgun kemur svo í ljós hvaða lið mætast í hinum undanúrslitaleiknum á laugardag, en þá eigast við Bandaríkjamenn og Þjóðverjar annars vegar og hinsvegar Grikkir og Frakkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×