Sport

Andi Zidane svífur enn yfir okkur

Andi Zinedine Zidane svífur enn yfir vötnum hjá franska landsliðinu
Andi Zinedine Zidane svífur enn yfir vötnum hjá franska landsliðinu AFP

Franska landsliðið er nú að leggja lokahönd á undirbúning sinn fyrir fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM 2008, en eins og allir vita verður liðið án aðalstjörnu sinnar Zinedine Zidane sem lagði skóna á hilluna eftir skrautlegt heimsmeistaramót í sumar.

"Það verður vissulega skrítið að vera án hans," sagði Louis Saha, leikmaður Manchester United og franska landsliðsins, en Frakkar mæta Georgíumönnum á laugardaginn og því næst heimsmeisturum Ítala fjórum dögum síðar - í þetta sinn án fyrirliða síns sem lét reka sig af velli í úrslitaleiknum á HM forðum.

"Við söknum Zidane mikið og hann er nú eins og vofa sem svífur yfir höfðum okkar, við hugsum mikið til hans. Hann hjálpaði okkur að gera stórkostlega hluti á HM í sumar og átti stóran þátt í að fleyta okkur alla leið í úrslitaleikinn. Liðið hafði ekki gott sjálfstraust í riðlakeppninni, en undir forystu hans náðum við að spila mjög vel í úrsláttarkeppninni. Við lærðum að spila og búa saman sem lið og urðum líkari félagsliði en landsliði á lokasprettinum. Það varð til andi í liðinu á HM sem nú lifir góðu lífi í hópnum," sagði Saha.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×