Innlent

Stefnir í Suðurlandsskjálfta fyrir kosningar

Það stefnir í nokkurs konar Suðurlandsskjálfta hjá Sjálfstæðismönnum í Suður- og Suðvesturkjördæmi þegar þingmenn og ráðherrar bítast um efstu sætin á framboðslistum til alþingiskosninga.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður flokksins, sækist eftir fyrsta sæti í Suðvesturkjördæmi, þar sem Árni Mathiesen fjármálaráðherra var áður. Sigríður Anna Þórðardóttir er annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og hyggst gefa kost á sér áfram en vill ekki tilgreina í hvaða sæti.

Eftir að Gunnar Birgisson hætti á þingi er Bjarni Benediktsson orðinn þriðji þingmaður flokksins. Hann var í fimmta sæti á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar og stefnir á að fikra sig upp á listanum. Aðspurður hvort hann ætlaði að berjast við Þorgerði Katrínu um toppsætið sagðist hann ekki hafa tekið neina ákvörðun. Gunnar Örlygsson sagði enn tvísýnt hvort hann fari fram eða ekki en ekki náðist í Sigurrós Þorgrímsdóttur.

Í Suðurkjördæmi hefur Sjálfstæðisflokkurinn þrjú þingsæti en þegar hafa fjórir þingmenn gefið kost á sér í efstu sætin: Árni Mathiesen færir sig í kjördæmið úr Suðvesturkjördæmi og gefur kost á sér í fyrsta sætið. Drífa Hjartardóttir gefur áfram kost á sér í annað sæti listans og Guðjón Hjörleifsson býður sig fram í 2. til 3. sætið. Fjórði þingmaðurinn sem keppir um eitt af efstu sætunum er Kjartan Ólafsson en hann hefur ekki tilgreint nánar hvaða sæti hann sækist eftir.

Kjördæmisráð ákveða hvort stillt verður upp á lista eða hvort haldið verði prófkjör. Kjördæmisráð Suðurkjördæmis fundar helgina 30. sept til 1.okt og kjördæmisráð Suðvesturkjördæmis tekur ákvörðun þann 4. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×