Innlent

Samið um dreifingu "Barna" við breskt fyrirtæki

Ný íslensk kvikmynd, Börn, verður frumsýnd í kvöld. Samningar hafa tekist við virt breskt fyrirtæki um sölu og dreifingu myndarinnar erlendis.

Myndin fjallar um fólk í Breiðholtinu sem er að leita að einhverjum tilgangi í lífinu. Leikstjóri myndarinnar er Ragnar Bragason sem leikstýrði meðal annars myndinni Fíaskó og hefur getið sér gott orð fyrir leikstjórn á gamanþáttunum Fóstbræður og Stelpurnar. Allir leikararnir komu að gerð handritsins og segir einn aðalleikaranna, Gísli Örn Garðarsson, að það hafi verið þetta umfjöllunarefni sem varð ofan á.

Myndin var sýnd á Haugasund-kvikmyndahátíðinni í Noregi nýverið og fékk afar góðar viðtökur, að sögn Kristínar Ólafsdóttur, framleiðanda myndarinnar. Í framhaldinu var samið við breska fyrirtækið Work um sölu- og dreifingu á henni erlendis. Fleiri sýningar á myndinni eru svo framundan, t.d. á San Sebastian hátíðinni á Spáni í lok september.

Efniviður myndarinnar varð að tveimur myndum, þó í raun alls óskyldum, en hin myndin, sem ber heitið „Foreldrar", verður frumsýnd í janúar. Kristínu leist vægast sagt illa á tvíleiksformið í upphafi en segist hafa sannfærst algjörlega eftir að hafa séð hvað þarna bjó að baki. Aðspurð hvort von sé á þriðju myndinni, sem gæti þá t.d. heitið „Afi og amma", ef móttökur "Barna" og "Foreldra" verða góðar, segir Kristín ómögulegt að svara því. Það sé líka Ragnars Bragasonar, leikstjóra myndanna, að svara því.

Frumsýningin í kvöld fer fram í Háskólabíói og er boðsýning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×