Innlent

Haftið rofið

Stærsti jarðborinn lauk hlutverki sínu í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar í morgun. Herdís Sigurgrímsdóttir var fyrir austan og fylgdist með ferlíkinu brjóta niður síðasta berghaftið.

Borinn er rúmlega sjö metrar í þvermál og hefur étið sig í gegnum fimmtán kílómetra af grjóti. Liðsmenn Impregilo fögnuðu ákaft þegar borinn loks stöðvaðist eftir tveggja ára grjótmulning. Verkefnisstjóri fyrirtækisins sagði mikla vinnu að baki.

Borar númer tvö og þrjú bora hver á móti öðrum og er búist við að síðasta haftið í aðrennslisgöngunum frá Hálslóni niður að Fljótsdalsstöðinni falli í nóvember. Göngin fyllast svo af vatni í apríl. Starfsmönnum Impregilo á Íslandi fer að fækka á Íslandi eftir jól en einhverjir verða þó áfram hér á landi þar til árið 2008. Meðal ítalskra, kínverskra og portúgalskra karlmanna sem smokruðu sér út úr borhausnum eftir síðasta snúninginn í morgun var ein litfríð og ljóshærð dönsk kona, jarðfræðingur sem hefur unnið með bormönnunum að kortlagningu jarðlaga sem borað er í gegnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×