Innlent

Hægt að lækka matarverð á morgun

Hægt væri að lækka matarverð á morgun með lækkun vörugjalda og tolla, að mati Guðlaugs Þór Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Viljaleysi til breytinga á landbúnaðarkerfinu, meðal annars af hálfu Framsóknarflokksins, sé ástæða þess að matarverð hafi ekki lækkað fyrr.

Guðulaugur Þór var gestur í Íslandi í bítið í morgun ásamt Katrínu Júlíusdóttur frá Samfylkingunni. Þar voru kostir og gallar krónunnar og Evrópusambandsaðild til umræðu og benti Katrín meðal annars á að matarverð hefði lækkað mikið í Svíþjóð eftir inngöngu í ESB.

Guðlaugur benti þá á að Svíar væru enn með sænsku krónuna af einhverjum ástæðum. Hvað varðaði lækkun matarverðs þá væri hægt að gera það á morgun. Aðspurður hvers vegna það hefði ekki verið gert í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefði verið lengi við völd sagði Guðlaugur Þór að hann hefði tala fyrir þeim sjónarmiðum á þingi hvað eftir annað að Íslendingar ættu að skilgreina betur viðskiptastefnu sínu. Hann sæi enga ástæðu til þess að vernda þann þátt landbúnaðarinsw sem væri ekkert sérstaklega „íslenskur" ef þannig mætti að orði komast, t.d. kjúklinga- og svínarækt.

Aðspurður hvort Framsóknarflokkurinn hefði haldið uppi matarverðinu sagði Guðlaugur að þegar grannt væri skoðað væri skiptar skoðanir í öllum flokkum um breytingar í landbúnaði en Vinstri - grænir og Framsóknarsflokkurinn hefðu verið minnst fyrir breytingar.

Aðspurður hverning lækka ætti matarverð á morgun sagði Guðlaugur Þór að hægt væri að lækka vörugjöld og tolla og auka samkeppni á markaði með þeim hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×