Innlent

Minni uppsjávarveiði á síðasta fiskveiðiári en árið á undan

MYND/365

Heildarafli hefur aldrei verið minni en á síðasta fiskveiðiári samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Minni veiði á uppsjávarfiski er þar einkum um að kenna.

Fiskistofa birti í gær bráðabirgðaaflatölur á vef sínum yfir fiskveiðiárið 2005-2006 sem lauk nú um mánaðamótin. Tæplega 1300 þúsund tonn veiddust á fiskveiðiárinu en það er rúmlega 350 þúsund tonnum minna en fiskveiðiárið þar á undan, en þá var hann 1769 þúsund tonn. Þetta er minnsti afli sem fengist hefur frá því að farið var að miða stjórn fiskveiða við tímabilið frá fyrsta september til 31. ágúst árið eftir fyrir fimmtán árum. Næstminnstur var aflinn fiskveiðiárið 1991/1992 eða 1.415 þúsund tonn

Þegar rýnt er í bráðabirgðatölurnar og aflinn á nýliðnu fiskveiðiári borinn saman við aflann árið á undan kemur í ljós að minnkandi afla má rekja til minni veiði á uppsjávarfiski. Aðeins veiddust um 193 þúsund tonn af loðnu á nýðliðnu fiskveiðiári en þau voru ríflega 600 þúsund fiskveiðiárið 2004/2005. Veiddist einnig minna af kolmunna og síld fiskveiðiárið 2005/2006 en árið þar á undan.

Eilítið meira var veitt af botnfiski á nýliðnu fiskveiðiári en fiskveiðiárið 2004/2005, meðal annars af ýsu og ufsa. Hins vegar dragast veiðar á skeldýrum saman á milli fiskveiðiáranna um tíu þúsund tonn og ræður þar minni veiði á úthafsrækju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×