Fótbolti

Meistararnir byrja með tilþrifum

Ronaldinho skoraði stórglæsilegt mark á lokamínútum leiksins gegn Levski Sofia í kvöld
Ronaldinho skoraði stórglæsilegt mark á lokamínútum leiksins gegn Levski Sofia í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Evrópumeistarar Barcelona hófu titilvörn sína með tilþrifum í kvöld þegar liðið valtaði yfir Levski Sofia 5-0 á Nou Camp. Börsungar létu úrhellisregn ekki hafa áhrif á sig á heimavelli sínum og var sigur liðsins aldrei í hættu eftir að það náði forystu strax í upphafi. Eiður Smári Guðjohnsen spilaði síðasta hálftímann með Barcelona en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Það var vel við hæfi að snillingurinn Ronaldinho skoraði fimmta og síðasta mark Barcelona undir lokin með stórkostlegu skoti í ofanverða stöngina og inn, en auk hans skoruðu þeir Iniesta, Puyol, Giuly og Eto´o.

Í hinum leiknum í A-riðli vann Chelsea nokkuð sannfærandi sigur á Werder Bremen 2-0 á Stamford Bridge í kvöld. Nafnarnir Michael Essien og Michael Ballack (víti) skoruðu mörk Chelsea í sitt hvorum hálfleiknum.

Í B-riðli vann Bayern Munchen 4-0 stórsigur á Spartak frá Moskvu og Sporting frá Lissabon vann óvæntan 1-0 sigur á sterku liði Inter Milan.

C-riðillinn var lítið fyrir augað, en þar skildu PSV og Liverpool jöfn í bragdaufum leik í Hollandi, líkt og Galatasaray og Bordeux í Tyrklandi.

Í D-riðlinum var hinsvegar nóg af mörkum, þar sem Roma burstaði Shaktar Donetsk 4-0 og Valencia vann góðan útisigur á Olympiakos 4-2 þar sem framherjinn knái Fernando Morientes fann sitt gamla form í meistaradeildinni og skoraði þrennu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×