Innlent

Áformum um stóriðju verði slegið á frest

Samfylkingin vill að frekari áformum um stóriðju verði slegið á frest og náttúra landsins verði sett í forgang. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem flokkurinn efndi til í dag þar sem ný umhverfisstefna var kynnt.

Stefnan er afrakstur tveggja ára vinnu innan flokksins og er í henni að finna tillögu um að styrkja stöði náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Meðal þess sem Samfylkingin leggur til er að réttur náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu verði tryggður, meðal annars með því að gerð verði rammaáætlun um náttúruvernd sem nái til allra náttúrusvæða landsins.

Þá er einnig lagt til að ákveðin svæði verði vernduð nú þegar, en í því felst meðal annars að Vatnajökulsþjóðgarður og friðlandið í Þjórsárverum verði stækkuð. Enn fremur vill Samfylkingin gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í landinu og auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, fagnar nýrri stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Hann segir Vinstri - græna ekkert feimna við samkeppni ef einhverjir líti svo á enda sé flokkurinn með allt sitt á hreinu hvort sem litið er á áherslur eða söguna. Vinstri - grænir séu eini græni flokkurinn í landinu og fróðlegt verði að sjá hversu langt Samfylkingin telji sig vera að ganga í þessa átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×