Fótbolti

United vann baráttuna um Bretland

Morðinginn með barnsandlitið er mættur aftur í slaginn í meistaradeildinni
Morðinginn með barnsandlitið er mættur aftur í slaginn í meistaradeildinni NordicPhotos/GettyImages

Manchester United hafði betur í baráttunni um Bretland í meistaradeildinni í kvöld þegar liðið lagði Glasgow Celtic 3-2 í æsilegum leik á Old Trafford. Louis Saha skoraði tvö mörk fyrir United og Ole Gunnar Solskjær skoraði sigurmark liðsins í upphafi síðari hálfleiks. Arsenal vann sigur á Hamburg á útivelli eftir að vera manni fleiri allan leikinn og Real Madrid steinlá gegn Lyon í Frakklandi.

Arsenal vann afar mikilvægan útisigur á Hamburg 2-1 á útivelli, þar sem heimamenn voru manni færri frá 10. mínútu. Gilberto kom liðinu yfir með marki úr víti og Tomas Rosicky skoraði draumamark í síðari hálfleiknum. Hamburg náði að minnka muninn í uppbótartíma en lengra komust Þjóðverjarnir ekki. 

Frönsku meistararnir í Lyon unnu sannfærandi sigur á Real Madrid 2-0 með mörkum frá Fred og Tiago í fyrri hálfleik og mátti spænska liðið þakka fyrir að tapa ekki stærra.

AC Milan vann auðveldan 3-0 sigur á AEK. Inzaghi, Gourcuff og Kaka (víti) skoruðu mörk ítalska liðsins. Steua Búkarest vann ótrúlegan 4-1 útisigur á Dynamo Kiev í Kænugarði, Anderlecht og Lille skildu jöfn 1-1 og markalaust varð í leik FC Kaupmannahafnar og Benfica - og sömuleiðis hjá Porto og CSKA Moskvu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×