Fótbolti

Hrósaði baráttuglöðum löndum sínum

Sir Alex var ánægður með sína menn í kvöld og hrósaði löndum sínum í Celtic fyrir baráttuandann
Sir Alex var ánægður með sína menn í kvöld og hrósaði löndum sínum í Celtic fyrir baráttuandann NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson var að vonum ánægður með góðan sigur sinna manna í Manchester United á Celtic í kvöld, en tók sér tíma til að hrósa löndum sínum fyrir að gefast aldrei upp. United vann leikinn verðskuldað 3-2, en skoska liðið stóð sig þó með mikilli prýði.

"Celtic barðist vel allan leikinn, enda ekki við öðru að búast frá mönnum á þeim bænum. Ég verð þó að segja að ég var nokkuð ánægður með sóknarleikinn hjá okkur og við hefðum með öllu átt að skora fleiri mörk í kvöld. Við gáfum Celtic þó óþarfa tækifæri með lélegri einbeitingu okkar í vörninni," sagði Ferguson.

Fyrrum leikmaður Manchester United og þjálfari Celtic, Gordon Strachan, sagði sína menn þurfa að horfast í augu við hina klassísku spurningu "hvað ef" á morgun.

"Við lögðum upp með að beita skyndisóknum á þá og það heppnaðist ágætlega, en klúðruðum þessu með kæruleysislegum sendingum og það kostaði okkur leikinn. Það eru einstaka leikmenn sem þurfa að horfast í augu við það þegar þeir vakna á morgun," sagði Strachan.

Það kann að hafa varpað nokkrum skugga á sigur Manchester United í kvöld að fyrr í dag var staðfest að Kóreumaðurinn Park yrði frá keppni í þrjá mánuði vegna ökklameiðsla og til að bæta gráu ofan á svart staðfesti Ferguson að Ryan Giggs yrði líklega frá keppni í þrjár vikur eftir að hafa tognað á læri í leiknum í kvöld. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×