Innlent

Margrét hugsanlega á leið úr stjórnmálum

Talið er að Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hætti í pólitík. Hún hefur gefið út þá yfirlýsingu að hún tilkynni um pólitíska framtíð sína á kjördæmisráðsfundi Suðurkjördæmis á sunnudag.

Kjördæmisráðsfundir Samfylkingarinnar í suður og norðvesturkjördæmi verða um helgina. Útlit er fyrir að þrír lykilmenn Samfylkingarinnar hætti í pólitík en Rannveig Guðmundsdóttir þingmaður hefur þegar tilkynnt að hún láti öðrum eftir sæti sitt í suðvesturkjördæmi.

Heimildir fréttastofu herma að Margrét sem skipaði fyrsta sætið í Suðurkjördæmi og Jóhann Ársælsson þingmaður hugsi sér til hreyfings en hann skipaði áður fyrsta sætið í norðvesturkjördæmi. Aðrir lykilmenn í Samfylkingu berjast væntanlega áfram fyrir sætum sínum. Þetta veldur því að prófkjörsslagurinn verður væntanlega harður, að minnsta kosti í suður og suðvesturkjördæmi. Í kjördæmi Margrétar fara væntanlega þrír fram í fyrsta sætið kjósi hún að hætta. Lúðvík Bergvinsson sem var í öðru sæti síðast, Björgvin Sigurðsson og Jón Gunnarsson en þetta skýrist á kjördæmisráðsfundinum á sunnudag. Gunnar Svavarsson og Þórunn Sveinbjarnardótir munu berjast um fyrsta sætið í suðvesturkjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×