Innlent

Segir auglýsingu Samfylkingarinnar hræðsluviðbrögð

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra segir krampakennd hræðsluviðbrögð einkenna auglýsingu Samfylkingarinnar um algera stöðvun allra orku- og stóriðjuframkvæmda í fimm ár. Þessi hræðsluviðbrögð séu ótrúverðug og fráleitt sé að hrökkva frá öllum erfiðum málum með endalausum frestum.

Iðnaðarráðherra segir ábyrgðarleysi að ýta öllu til hliðar í stundarhræðslu vegna skoðanakannana eða annarra óskyldra ástæðna.

Jón Sigurðsson situr fastur við sinn keip um að tímabili virkar stóriðjustefnu stjórnvalda sé lokið og stóriðja lúti nú almennum leikreglum. Samfylkingin sé hinsvegar slegin blindu af sósíalistískum réttrúnaði og þekki ekki mun á ríkisforsjá og frelsi. Hann hefur sagt að það komi til greina að ríkisvaldið ræði við fyrirtækin til að tryggja að allar fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir komi ekki til framkvæmda á sama tíma til að forðast ofhitnun í efnahagslífinu.

Ráðherrann segist vilja að ríkisstjórn og Alþingi vinni saman að rammaáætlun um verndar og notagildi íslenskrar náttúru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×