Innlent

Afhenti skattframtöl örorkulífeyrisþega án leyfis?

MYND/Stöð 2-NFS

Örorkulífeyrisþegi hyggst höfða mál, og jafnvel leggja fram stjórnsýslukæru á hendur Skattstjóranum í Reykjavík fyrir að afhenda skattframtöl sín, án leyfis.

Greiðslustofa lífeyrissjóðanna tilkynnti þann 1. ágúst síðastliðinn að niðurstaða heildarathugunar á tekjum örorkulífeyrisþega sýni að í sumum tilfellum séu heildartekjur lífeyrisþega umfram þau viðmiðunarmörk sem kveðið sé á um í samþykktum og reglum lífeyrissjóðanna. Þetta gerir það að verkum að 1200 öryrkjar munu missa allar lífeyrisbætur sínar þann 1. nóvember og bætur 1100 manns til viðbótar skerðast á sama tíma.

Þórir Karl Jónasson, einn þeirra sem verður fyrir skerðingunni, segir að Skattstjóranum í Reykjavík hafi ekki verið heimilt að afhenda skattframtöl sín við þessa tekjuathugun lífeyrissjóðanna lengur en 6 ár aftur í tímann. Skattstjórinn er á öðru máli og vísar þar í umboð sem Þórir á að hafa veitt við mat á örorku hans árið 1992. Mál Þóris er nú í athugun hjá Persónuvernd.

Þórir segir að sér hafi verið ráðlagt að fara í mál, og jafnvel leggja fram stjórnsýslukæru, á hendur Skattstjóranum í Reykjavík. Hann hyggst taka afstöðu hvort hann gerir að fenginni niðurstöðu Persónuverndar. Þá segist Þórir hafa sent þremur þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd afrit af skjölunum sem sanni mál hans og það verði líklega tekið fyrir á fundi nefndarinnar á miðvikudaginn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×