Innlent

Íslensk lögregla búi við þrengri skorður en starfsbræður annars staðar

MYND/Stefán

Embætti Ríkislögreglustjóra ætlar ekki að tjá sig um fréttaflutning af því að lögregluyfirvöld rannsaki nú mál manns sem sagður er ógn við þjóðaröryggi. Dómsmálaráðherra segir lögreglu hér á landi búa við þrengri skorður til að rannsaka mál sem þessi.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Ríkislögreglustjóri rannsaki nú mál manns af erlendum uppruna, sem lagt hafi sig fram um það á Netinu að kynna sér meðferð sprengiefna og hvernig búa megi til sprengjur. Er málið sagt flokkast undir þjóðaröryggismál.

Fréttastofa hafði samband við embætti ríkislögreglustjóra í morgun en þar var fyrir svörum Jón H.B. Snorrason þar sem bæði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri eru fjarverandi. Jón sagði embættið ekkert vilja tjá sig um fréttaflutninginn.

Í matsskýrslu um hryðjuverkarannsóknir á Íslandi, sem sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins unnu fyrr á árinu, er bent á takmarkaðar heimildir lögregluyfirvalda hér á landi til að rannsaka mál. Er þar um að ræða svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir, þ.e. heimildir til að rannsaka mál ef ekki er rökstuddur grunur um refsivert athæfi.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur í fjölmiðlum kallað eftir umræðum um slíkar heimildir og hann segir íslenska lögreglu búa við þrengri skorður en nágrannaþjóðirnar. Hann hafi viljað byrgja brunninn áður en barnið detti ofan í hann en fjölmiðlar viljað gera það eftir á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×