Innlent

Skonnortan Haukur í Reykjavíkurhöfn

Skonnortan Haukur frá Húsavík er nú kominn til Reykjavíkurhafnar í ferð sinni hringinn í kringum landið. Skonnortan hefur siglt með ferðamenn í hvalaskoðun síðastliðin sumur en þetta er í fyrsta sinn sem hún siglir hringinn í kringum landið.

Það er Norður-Sigling á Húsavík sem á og rekur skonnortuna en hún hefur verið notuð í hvala- og náttúruskoðunarferðir ýmisskonar. Hún hefur meðal annars verið notuð í ferðir þar sem siglt er norðan heimskautsbaugs, til Siglufjarðar og um Norðurland. Áhöfnin á Hauk lagði úr höfn á Húsavík 8. september síðastliðinn. Ferðin hefur gengið vel og móttökurnar hafa verið góðar í höfnum landsins.

Skonnortan er 20 brúttótonna eikarbátur og var upphaflega fiskibátur sem byggður árið 1975. Þegar Norður-Sigling keypti bátinn sáu þeir möguleika á að breyta honum í skonnortu og var reiðinn settur á árið 2002.

Skonnortan verður í Reykjavíkurhöfn í nokkra daga. Áhöfnin mun taka á móti gestum og gangandi á morgun og laugardag frá klukkan 10 til fimm. Ferðinni er svo heitið til Vestmannaeyja og þaðan áfram til Húsavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×