Innlent

Stenst ekki lög - jafnvel ekki stjórnarskrá

Öryrkjabandalagið ætlar í mál við lífeyrissjóðina fjórtán, sem ákveðið hafa að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til öryrkja, ef ákvörðuninni verður ekki breytt fyrir næstu mánaðamót. Formaður bandalagsins segir alveg ljóst að aðgerðin standist ekki lög, jafnvel ekki stjórnarskrá.

Greiðslustofa lífeyrissjóðanna tilkynnti þann 1. ágúst síðastliðinn að niðurstaða heildarathugunar á tekjum örorkulífeyrisþega sýni að í sumum tilfellum séu heildartekjur lífeyrisþega umfram þau viðmiðunarmörk sem kveðið sé á um í samþykktum og reglum lífeyrissjóðanna. Þetta gerir það að verkum að lífeyrisgreiðslur 2300 örorkulífeyrisþega skerðast eða falla niður þann 1. nóvember.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands fundaði um málið í gær, og segir Sigursteinn Másson, formaður bandalagsins, að niðurstaða fundarins sé afdráttarlaus. Ef ákvörðun lífeyrissjóðanna verður ekki breytt fyrir 1. október nk. verður sjóðunum stefnt fyir dómstóla.

Sigursteinn segir reginvilluna í útreikningum lífeyrissjóðina vera þá að miða við neysluvísitölu í stað launavísitölu. Þetta séu allir hagfræðingar og tryggingastærðfræðingar, sem hafa tjáð sig um málið, sammála um. Einnig séu hlutir eins og dánarbætur, eingreiðslur og bensínstyrkir reiknaðir sem tekjur, sem ekki sé rétt að gera.

„Við höfðum nú til verkalýðshreyfingarinnar og SA - til samvisku þeirra manna sem þarna eiga í hlut - að hverfa nú frá þessum aðgerðum gegn mörgu af fátækasta fólkinu í landinu," segir Sigursteinn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×